Þann 13. nóvember sl. afhentu fulltrúar Umhverfisstofnunar Málningu hf. Svansleyfi fyrir alla innanhússmálningu í framleiðslu fyrirtækisins. Fyrirtækið er númer 38 á Íslandi sem hlýtur vottun Svansins. Leyfið nær yfir tæplega 30 tegundir innanhússmálningar sem seldar eru undir vörumerkjum Málningar og Slippfélagsins.
“Það er mjög ánægjulegt að sjá framleiðslufyrirtæki taka við sér og sækjast eftir óháðri umhverfisvottun. Hingað til hafa flestir leyfishafar verið þjónustufyrirtæki. Svanurinn er gæðastimpill og ætti vottun að bæta samkeppnishæfi vöru sem bera merkið,” segir Birgitta Stefánsdóttir, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun.
Umhverfisstofnun óskar fyrirtækinu til hamingju og þakkar Málningu fyrir gott samstarf í umsóknarferlinu. Utanumhald og skipulag fyrirtækisins í öllu ferlinu var til fyrirmyndar. Fyrirtækið vann mjög markvisst að vottun á meðan á ferlinu stóð og gekk vinnan mjög örugglega fyrir sig segir í frétt Umhverfisstofnunar. Ljósmyndir/Umhverfisstofnun.